Þakkir í mótslok

Þá er Nettómótinu 2011 lokið. Á endanum reyndust keppnisliðin vera 188 og leiknir voru 447 leikir en um 1.200 keppendur léku á mótinu, þeir yngstu 5 ára og ljóst er að þetta er fjölmennasta körfuboltamót sem haldið hefur verið á landinu til þessa. Alls gistu rúmlega 1.000 manns í skólamannvirkjum bæjarins sem var talsvert meiri fjöldi en við höfðum búið okkur undir. Allir fengu þó sinn svefnstað og sváfu bara nokkuð vel.

Heimasíðan lagðist í dvala um mitt mótið þar sem vefstjóri síðunnar og einn af framkvæmdastjórum mótsins var fluttur í botnlangauppskurð þegar leikar stóðu sem hæst.  Af þeim sökum var ekki meira um fréttaflutning af mótinu fyrr en þessi orð eru skrifuð af sama aðila, bara heldur hressari en á laugardagskvöldinu.

Segja má að mótið hafi allt gengið samkvæmt áætlun þó alltaf komi upp óvænt verkefni sem þarf að leysa með hraði og flest eru þau þess eðlis að mótsgestir hafa enga hugmynd um hverju er verið að redda á bak við tjöldin. Annað árið í röð reynist fjöldi keppenda umtalsvert meiri en við höfðum búið okkur undir en þrátt fyrir það stóðust allar okkar tímaáætlanir. Þessi fjöldi sem er farinn að sækja mótið heim kallar þó óhjákvæmilega á endurskoðun ákveðinna þátta og höfum við skipuleggjendur mótsins þegar fengið nokkrar hugmyndir sem munu koma til framkvæmda fyrir næsta mót og verða til bæta gott mót enn frekar. 

Mótshaldarar vilja að lokum þakka öllum keppendum, þjálfurum, foreldrum og forráðarmönnum fyrir frábæra frammistöðu og leikgleði um helgina. Einnig viljum við færa öllum okkar félagsmönnum, sem lögðu hönd á plóginn við þrotlausa vinnu þessa helgi, okkar bestu þakkir fyrir óeigingjarnt framlag í þágu körfunnar og unga fólksins. Síðast en ekki síst fá öll þau fyrirtæki og stofnanir sem lagt hafa mótinu lið okkur bestu þakkir. Þar ber sérstaklega að nefna tvo aðila sem eru annars vegar Samkaup, rekstraraðili Nettóbúðanna, en þeir hafa verið aðal bakhjarl mótsins í áraraðir og hins vegar Reykjanesbæ sem styður okkur með margvíslegum hætti við mótshaldið.

Óskilamunum hefur verið safnað saman í Íþróttahúsinu við Sunnubraut, sími 421 1771

Þúsund þakkir til ykkar allra og vonandi sjáumst við sem flest aftur á Nettómótinu 3.-4. mars 2012.

Barna- og unglingaráð Keflavíkur og Njarðvíkur



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig langar til að benda á eitt varðandi mótið. Ef þið eruð að taka myndir af krökkunum sem eru að spila þá verðið þið að gæta þess að myndir komi af öllum liðum sem er á mótinu. Sonur minn var á mótinu og fannst mjög gaman en hann saknar þess að sjá mynd af hans liði í myndasafninu. Gott að hafa það í huga fyrir næsta mót.

Magnús (IP-tala skráð) 15.3.2011 kl. 11:30

2 identicon

Sæll Magnús

Það eru engar myndir á mótinu teknar á okkar vegum en það er eitthvað sem við höfum stundum rætt um að gera en ekki orðið að veruleika.  Þær myndir sem hafa verið birtar eru myndir teknar af ljósmyndara Körfunnar.is og Víkurfrétta. Við höfum síðan fengið að nota myndir frá þessum aðilum í t.d. bækling mótsins.  Auðvitað er alltaf leiðinlegt að ekki skuli finnast myndir af öllum eftir mót og þó að reynt væri að ná sem flestum á myndir er alltaf hætta á að einhverjir verði útundan þegar fjöldinn er þetta mikill. 

Vefstjóri (IP-tala skráð) 15.3.2011 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband