20. mótinu lokið - Þakkir til allra í mótslok

Seinni keppnisdagur Nettómótsins 2010 gekk glimrandi vel. Þegar leiknir höfðu verið 356 leikir lauk gleðinni með mótsslitum og verðlaunaafhendingu kl.14.30 eftir að allir höfðu hlaðið í sig pizzum frá Langbest og skolað þeim niður með Pepsi frá Egils. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar og leikmenn úr meistaraflokkum félaganna aðstoðuðu við verðlaunaafhendingu og allir keppendur voru leystir út með peysum sem minjagrip um mótið. Nokkur lið þurftu að halda heim á leið áður en lokaathöfnin fór fram en það er stundum óhjákvæmilegt, þar sem margra bíður langt og strangt ferðalag aftur heim. Við vonum að ferðalagið hafi gengið vel og allir hafi náð að taka góðar minningar með heim af mótinu.

Mótshaldarar vilja þakka öllum þátttakendum, foreldrum og forráðarmönnum fyrir frábæra frammistöðu um helgina. Einnig viljum við færa öllum okkar félagsmönnum, sem lögðu hönd á plóginn við þrotlausa vinnu um helgina, bestu þakkir fyrir óeigingjarnt framlag. Síðast en ekki síst fá öll þau fyrirtæki og stofnanir sem lagt hafa mótinu lið okkur bestu þakkir. Þar ber sérstaklega að nefna tvo aðila sem eru annars vegar Samkaup, rekstraraðili Nettóbúðanna, en þeir hafa verið aðal bakhjarl mótsins í áraraðir og hins vegar Reykjanesbæ sem styður okkur með margvíslegum hætti við mótshaldið.

Þeir sem þurftu að fara fyrr heim, og hafa e.v.t. ekki fengið verðlaunapening eða fengu t.d. of litla eða of stóra peysu, eru beðnir um að láta forráðarmann síns félags hafa þær upplýsingar.  Sá aðili er síðan beðinn um að senda okkur upplýsingarnar með tölvupósti á nettomot@gmail.com og við munum afgreiða þær eins fljótt og vel og okkur er unnt.

Óskilamunum hefur verið safnað saman í Íþróttahúsinu við Sunnubraut (sími 421 1771) og m.a. var þar vegleg myndavél í tösku í óskilum ásamt einhveru slangri af fatnaði.

Að lokum viljum við senda ungum leikmanni Fsu, Þorra Elí okkar bestu batakveðjur en hann varð fyrir því óhappi að ökklabrotna um hádegisleitið á sunnudeginum í íþróttahúsinu Ásbrú. Læknirinn sem meðhöndlaði hann var þó bjartsýnn á að hann myndi ná sér vel og vonum við sannarlega að svo verði.

Þakkir til ykkar allra og vonandi sjáumst við sem flest aftur á Nettómótinu 5.-6. mars 2011.

Barna- og unglingaráð Keflavíkur og Njarðvíkur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband