Takk fyrir okkur

Nettómótið 2024 fór fram í Reykjanesbæ fyrstu helgina í mars eins og svo oft áður. Í ár var 6% fjölgun þátttakenda á mótinu og bæta þurfti við völlum í Sandgerði til að rúma allan leikjafjölda mótsins.

Ekki spillti fyrir að veðurguðirnir tóku þá ákvörðun að fara í sparigallann og leika við mótsgesti alla helgina.

KarfaN, hagsmunafélag unglingaráða körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur hefur veg og vanda að undirbúningi og framkvæmd mótsins en þar eru margar hendur sem vinna mikið og gott verk. Auk þess á mótsnefnd öfluga bakhjarla sem hafa stutt með myndarbrag við mótið í gegnum árin með fjölbreyttu framlagi.

Í ár var leikið í Akurskóla, Ljónagryfjunni, Bluehöllinni, Heiðarskóla og í íþróttamiðstöðinni í Sandgerði. Við kunnum vinum okkar í Suðurnesjabæ bestu þakkir fyrir afnotin af húsinu en þess má geta að íþróttahúsið í Sandgerði er fyrsti íþróttasalur landsins sem var  LED-væddur með fullri keppnislýsingu.  Vel gert Sandgerðingar.

Hundruði leikja þarf að dæma og dómurum mótsins færum við kærar þakkir, foreldrum/forráðamönnum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu líka. Það er svo margt sem hangir saman þegar svona viðburður á sér stað. Þrátt fyrir að um körfuboltamót sé að ræða eru jafnan margar deildir sem leggja lóð sín á vogarskálarnar og því ekki óalgengt að knattspyrnudeildir Njarðvíkur og Keflavíkur séu að snúast með okkur þessa daga auk fjáröflunarhópar innan körfuknattleksdeildanna. Takk öll fyrir ykkar framlag.

Reyndar væri hægt að gera heilan kvæðabálk af þökkum eftir svona mót en Reykjanesbær og Nettó eru helstu bakhjarlar verkefnisins og sú velvild verður seint fullþökkuð. Með jafn öfluga bakvarðasveit við að gera gott mót fyrir körfuboltakrakka horfum við björtum augum til framtíðar og allar líkur á því að Nettómótið 2025 fari að hluta til fram í nýjum og glæsilegum Stapaskóla í Innri-Njarðvík. Þá verður heldur betur tilefni til að bæta við þátttakendum svo fylgist vel með þegar við kynnum mót næsta árs sem haldið verður 1.-2. mars. 

Með vinsemd, virðingu og kærum þökkum

KarfaN, hagsmunafélag


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband